Undirritaður og aðrir persónuverndarfulltrúar sveitarfélaga fengu sendar ábendingar frá Persónuvernd „vegna misskilnings í skólasamfélaginu um gildissvið nýrra persónuverndarlaga“. Hér má lesa ábendinguna í heild sinni.

Tilefnin eru svo sannarlega til staðar. Í Reykjanesbæ er þannig háttað í grunnskólum að foreldrum og forráðamönnum er meinaður aðgangur að skólastofum. Gleymist nesti eða leikfimidót þá skal það skilið eftir hjá ritara og ritari sér um að koma því til nemandans. Þessi háttur hefur verið hafður á síðan við skólasetningu í haust og það sem meira er, þetta hefur verið gert í skjóli nýrra persónuverndarlaga. Nú hafa eflaust ekki margir lesið GDPR frá fyrsta formálsorði til síðustu orða síðustu greinar. En ekkert í GDPR bannar foreldrum/forráðamönnum að umgangast grunnskóla. Það kann að vera að starfsfólki grunnskóla þyki vanta vinnufrið og grípi því til þessara ráðstafana en þá skal rétt vera rétt, það er ekki nauðsynlegt vegna nýrra persónuverndarlaga.

„Persónuvernd bendir á að gera þarf skýran greinarmun á því hvort um sé að ræða breytingar sem eru tilkomnar vegna persónuverndarlaga og falla undir gildissvið þeirra eða hvort um sé að ræða breytt verklag vegna eðlilegra öryggisráðstafana eða annarra starfsreglna sem ekki varða persónuverndarlögin.“

Myndatökur í skólum

Persónuvernd bendir á að ekki þurfi heimild til vinnslu persónuupplýsinga vegna myndatöku „þegar einstaklingar taka ljósmyndir af börnum sínum“ enda fellur það utan gildissviðs persónuverndarlaganna að einstaklingur vinni persónuupplýsingar er eingöngu varða einkahagi hans eða fjölskyldu og/eða eru eingögnu ætlaðar til persónulegra nota. Enda væri það ljóta vitleysan ef allt heimilisbókhald þyrfti að byggjast á einum af sex heimildum sem grundvalla má vinnslu persónuupplýsinga á.

Einnig er vert að nefna annan punkt úr ábendingum Persónuverndar, sá punktur er sá að þegar opnir viðburðir eru í skólum, þá má taka myndir, óháð því hvort samþykki liggur fyrir.

Í þessu samhengi sér undirritaður fyrir sér að á skólasetningum, jólaskemmtun, árshátíðum, leiksýningum og við skólaslit megi taka myndir án tillits til þess hvort samþykki hefur verið veitt. Persónuvernd nefnir ekki viðburðina en ætla má að þetta séu þeir viðburðir sem um ræðir. Bekkjarmyndir lúta sama lögmáli skv. Persónuvernd, sem er vel. Jafnvel þótt einhverjir hugsi með hrylling til þeirra mynda síðan í grunnskóla.

„Hvað var ég að gera með þessa hárgreiðslu?“

„Hvað var ég að gera í þessum fötum?“

Því miður, þetta má skrá og skal skrá. Grunnskólar eru skilaskyldir á skjalasöfn. Þessar myndir verða þá til að eilífu, sama hversu vond klippingin var.

Þá fagnar Persónuvernd þeirri framkvæmd að óska samþykkis foreldra/forráðamanna vegna myndatöku af börnum í grunnskólum. Til að blása aðeins í eigin lúðra þá höfðum við hjá Dattaca Labs þegar hafið þessa vinnu með þeim grunnskólum sem við erum að þjónusta.

Í ábendingum Persónuverndar er að finna marga aðra góða punkta, það er afar vel að Persónuvernd gefi út svona leiðbeiningar. Fyrirsögnin kann að hljóma kaldhæðnisleg en hún er raunverulega vel meint. Persónuvernd gerði þetta vel, það er aldrei nógu mikið af svona vel unnum ábendingum/leiðbeiningum sem skýra grá svæði fremur umfangsmikillar löggjafar.