Já þú last rétt! Frétt þess efnis birtist fyrst inni á þýskum miðli Die Welt sem sjá má hér. Í kjölfarið tóku aðrir fréttamiðlar upp á því að fjalla um efnið, þ.á.m. CNN og Daily Mail. Fréttaefnið lýtur að því að á hverju ári hefur verið hefð fyrir því að börn hengi óskalista til jólasveinsins á tré á jólamarkaði í bænum Roth, Bavaria í Þýskalandi. Bæjaryfirvöld hafa svo reynt að uppfylla óskir þessara barna. Óskirnar geta m.a. falið í sér ósk um að verða bæjarstjóri o.s.frv. Þær voru því uppfylltar á þann veg að börn fengu að hitta bæjarstjórann, heimsækja slökkviliðsstöðina o.s.frv. Um 4000 börn hafa árlega tekið þátt í þessari athöfn. Yfirvöld þar á bæ litu þannig á að með tilkomu GDPR (General Data Protection Regulation) þyrftu þau að hætta þessari áralöngu hefð. Ástæðan fyrir því var að á óskalistanum væru að finna upplýsingar um nafn, aldur og heimilisfang barns og þeim upplýsingum miðlað til þriðja aðila, þ.e. til annars aðila en jólasveinsins. Bæjaryfirvöld töldu sig þurfa samþykki foreldra þar sem tiltekið væri að upplýsingunum gæti verið deilt með þriðja aðila. Að öðrum kosti hefðu þau ekki heimild til þess að vinna þessar persónuupplýsingar. Bæjaryfirvöld óttuðust jafnframt það að geta fengið sekt væri ekki gætt að þessu. Útvarpsstöð sem staðsett er í bænum ákvað að taka málið í sínar hendur og leitaði til sérfræðinga um málið í þeim tilgangi að finna leið til að halda þessari hefð við. Niðurstaðan var sú að útvarpsstöðin ákvað að útbúa óskalista sem innihéldi samþykki frá foreldrum sem hægt væri að prenta af vefsíðu þeirra.

Það skoplega við þessa annars skemmtilegu frétt er það að bloggað var um þetta inni á vefsíðu Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í Bretlandi sem sjá má hér. Þar er vísað til fréttar Daily Mail um málið. Þar er skýrt tekið fram að GDPR taki ekki fyrir það að börn geti haldið þessari hefð áfram. Heimilt sé að vinna persónuupplýsingar á grundvelli samþykkis en einnig á öðrum lagagrundvelli. Í því samhengi er vísað til þess að jólasveinninn þarf á upplýsingunum að halda til þess að geta gefið gjafirnar samkvæmt óskalistanum að því tilskyldu að foreldrar séu samþykkir því. Þetta hefur verið í reglum síðustu 20 ár og hefur GDPR ekki breytt því. Að lokum er tiltekið að bærinn ætlar að halda áfram þessari skemmtilegu hefð.

Reynist þessi frétt 100% rétt er það einmitt merki um mistúlkun á þessari nýju persónuverndarlöggjöf. Kristinn Gylfason, kollegi minn, hefur til að mynda bloggað um það sem lýtur að samskonar mistúlkun. Það blogg má sjá hér. Þar fjallar hann um það þegar Persónuvernd gaf nýlega út skjal með ábendingu frá nefndinni vegna misskilnings sem gætt hafði í skólasamfélaginu.