Rétturinn til leiðréttingar (16.gr. GDPR)

Það er afar mikilvægt að geta leiðrétt misskilning eða villur. Rétt skal vera rétt. Í 1. mgr. 20. gr. laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga sbr. 16. gr. GDPR er einstaklingum tryggður sá réttur á að fá óáreiðanlegar persónuupplýsingar um sig leiðréttar af ábyrgðaraðila án ótilhlýðilegrar tafar.

Sama grein GDPR kveður á um að hinn skráði skuli eiga rétt á að láta fullgera ófullkomnar persónuupplýsingar, þ.m.t. með því að leggja fram yfirlýsingu til viðbótar.

Eins og segir í frumvarpi til laga nr. 90/2018 þá hefur rétturinn til að fá gögn leiðrétt eða þeim eytt, svo og andmælaréttur „lengi verið ein grunnreglna persónuverndarlaga og birtist m.a. í 14. gr. tilskipunar ESB“. Meginreglan er að persónuupplýsingar skulu vera áreiðanlegar og uppfærðar eftir þörfum og að persónuupplýsingar sem eru óáreiðanlegar eða ófullkomnar, með tilliti til tilgangs vinnslu þeirra, skal eyða eða leiðretta án tafar.

Hvað er rétt að leiðrétta?

Það er gott og vel að leiðrétta upplýsingar sem skipta miklu en stundum getur verið nauðsynlegt að halda líka utan um rangar upplýsingar, upp á skjalfestingu og staðfestingu ferils.

Dæmi: Læknir kemst að þeirri niðurstöðu að sjúklingur sé með ákveðinn sjúkdóm og skráir slíkt í sjúkrasögu einstaklingsins. Skömmu síðar kemur í ljós að greiningin er röng. Þá er sennilega eðlilegast að sjúkrasaga einstaklingsins innihaldi upplýsingar um báðar greiningar og endanlega niðurstöðu. Með því móti er sjúkrasaga einstaklingsins hvað nákvæmust. Svo lengi sem sagan er skýrt skilgreind og endanleg niðurstaða er sérstaklega tekin til. Ef svo er í pottinn búið er erfitt að segja að sjúkrasagan sé ónákvæm og þarfnist leiðréttingar.

Skoðanir

Það getur verið erfitt að meta hvort skoðanir eru upplýsingar sem leiðrétta ber. Almenna reglan er þó sú að ef skýrt er að um skoðun einhvers er að ræða og sá aðili er tilgreindur (skoðunarhafi), þá er erfitt að færa rök fyrir því að huglægt mat sé rangt og þarfnist leiðréttingar.

Rétturinn til leiðréttingar skal eins og almennt gildir um hin réttindi skráðra einstaklinga, vera veittur án endurgjalds, nema að beiðnir um slíkt séu algerlega óþarfar eða fari fram úr því sem er almennt talið skynsamlegt, þá má krefjast hóflegs endurgjalds.