Gleðilegan GDPR dag. í dag, 25. maí, tóku gildi ný evrópsk persónuverndarlög (GDPR) sem í grófum dráttum færir forræðið yfir persónuupplýsingum aftur til einstaklingsins. Í þessum pistli er leitast við því að fá lesendur til að færa sig úr bringusundinu og yfir í kafsundið án þess að farið sé með ítarlegum hætti í innihald löggjafarinnar orð frá orði heldur að einblína á möguleikana og framtíðina.

Við getum sagt sem svo að yfirborðið sé hinn lagalegi rammi, en um leið og kafað er undir það þá blasir við annar heimur. Við ætlum að halda okkur undir vatnsborðinu og reyna að skyggnast inn í nýjan heim  Sá heimur inniheldur nýjar auðlindir og ný tækifæri sem ekki allskostar auðvelt er að reka augun í við fyrstu sýn, enda er lagaramminn flókinn og langur, alls 81 bls. að lengd þar sem finna má orðaskrípi sem almenningur og atvinnurekendur eiga ekkert endilega auðvelt með að skilja. En um leið og hægt er að brjótast undir yfirborðið liggur landið betur við fót.

Undanfarin misseri má segja að samfélagið okkar hafi verið að þróast í þá átt að fyrirtæki og stofnanir safna persónuupplýsingum um einstaklinga, þau söðla síðan í kjölfarið um með þær upplýsingar og jafnvel notfæra sér þær í mis heiðarlegum tilgangi. Ekki þarf að leita lengra en til Cambridge Analytica málsins því til stuðnings. Þó er rétt að taka fram að þar er um undantekningu að ræða, enda sem betur fer er enn til nóg af fyrirtækjum og stofnunum sem starfa á siðferðislega réttu rófi.

Stemningin í upplýsingasamfélaginu hefur í raun verið þannig að auðvelt er að samþykkja hina ýmsu skilmála sem fyrirtæki, smáforrit og aðrir setja án þess að gera sér grein fyrir því hvað liggur að baki. Í hvaða tilgangi verið er að vinna persónuupplýsingar, hvar þær eru vistaðar og hver hefur aðgang að þeim. Svo virðist vera að fáar hræður kæri sig um að vera meðvitaður um það sem gerist á bakvið tjöldin.

Að mati höfundar liggur hundurinn grafinn þar sem einstaklingar eru ekki að sjá né gera sér grein fyrir þeim verðmætum sem raunverulega felast í persónuupplýsingum. Upplýsingar sem allir einstaklingar búa yfir, ekki bara þeir sem hafa meira á milli handanna en aðrir, hafa hlotið betri menntun, kunna að lesa eða ekki. Allir einstaklingar búa yfir persónuupplýsingum og þar með geta allir verið sín eigin auðlind í þeim skilningi.

Háværar gagnrýnar raddir hafa kosið að tjá sig um lesti GDPR, að þungt sé í vöfum og dýrt að innleiða reglugerðina. Vissulega er vel hægt að taka undir einhverja þeirra radda, en við skulum líta framhjá krónum og aurum og höldum áfram í kafsundinu. Reynum að horfa lengra en að næstu gulu stiku.

Við búum yfir gríðarlega mikilli sérfræðiþekkingu sem á sér nánast engin takmörk, eða hvað? Tækni, gervigreind, læknisfræði og lengi mætti halda áfram að telja, öllu þessu hefur fleygt fram á ógnarhraða en svo virðist vera að þessi dýrmæta sérfræðiþekking strandi á ákveðnum stað. Hvað þarf til svo að hægt sé að hámarka tæknina, nota hana til hins ítrasta?

Persónuupplýsingar er týnda púslið sem til þarf. Persónuupplýsingar er hin nýja auðlind.

Þegar síðasta púslið er sett í hendur tækninnar verða til ótakmarkaðir möguleikar og vaxa tækifærin í takt við það. Persónusniðnar lausnir eru framtíðin, en slíkar lausnir eru hreinlega til þess fallnar að geta bjargað mannslífum. Persónusniðnar lausnir er það sem auðlindin okkar færir einstaklingum. Gervigreind ein og sér lifnar ekki almennilega við nema eftir að persónuupplýsingar koma til sögunnar sem dæmi.

Kjósum að sjá þann kost sem GDPR færir okkur og náum í gögnin okkar og nýtum okkur réttinn sem lögin færa okkur á silfurfati. Náum í sjúkraskýrslur, náum í erfðaupplýsingar, náum í fjármálaupplýsingar og í raun allar þær upplýsingar sem til eru um okkur og notum þær okkur til góða. Með algoritmum ofan á persónuupplýsingar er verið að opna dyr inn í framtíðina. Þar blasir við heimur þar sem við þurfum ekki lengur að fara til heimilislæknis sem setur okkur í mengi út frá nokkrum spurningum þar sem í kjölfarið er skrifað uppá líklegustu lækninguna. Heimur þar sem við getum kosið að látið af hendi allar okkar heilsufarstengdu persónuupplýsingar þar sem algoritmi smíðaður af sérfræðingum færir okkur útkomu sem er sérsniðin að okkur. Heimur þar sem læknirinn hefur kost á því að fara lengra og dýpra og fundið hina fullkomnu persónusniðnu lausn án þess að setja viðkomandi í mengi með þúsund öðrum Jónum og Gunnum. Lausn sem fengin er með samspili sérfræðiþekkingar og tækni, þar sem hægt er að hámarka skilvirkni og ýta undir enn frekari framfarir. Notum auðlindina okkar og leyfum tækninni að gera það sem hún gerir best, auðvelda vinnuna og finna bestu útkomuna.

Síðan er ekki að spurja að því hvort að hægt sé að beita þessu á annan hátt en í læknisfræðilegu samhengi, enda allir vegir færir. Hvort sem um er að ræða fjármál, tryggingar, sálfræði og í raun hvað sem er sem ber með sér persónuupplýsingar af einhverjum toga. Notum ímyndunaraflið og sköpum nýjan heim saman.