Evrópudómstóllinn (CJEU) gaf þann 29. júní út fréttatilkynningu (hér má lesa hana í heild sinni) þess efnis að einstaklingar sem eiga aðild að forúrskurðarmálum verða ekki lengur tilgreindir með nafni, heldur með upphafsstöfum sínum. Upphafsstafirnir verða þó ekki réttir svo það er engin leið að vita hver er málsaðili.

Lögaðilar verða áfram tilgreindir og sama gildir um opinbera aðila og ríki. Það er því eingöngu verið að breyta til að bregðast við GDPR, sem er vel.

Þá segir í tilkynningunni:

„Þegar mál er eingöngu á milli einstaklinga, þá verður málið nefnt í samræmi við tvo upphafsstafi sem eru í fornafni og eftirnafni stefnanda, en þeir munu ekki vera þeir sömu og eru raunverulegir upphafsstafir þess aðila. Til að koma í veg fyrir að mörg mál beri sömu upphafsstafi (þar sem samsetningarnar eru ekki óendanlega margar), þá mun dómstóllinn bæta við upphafsstafina sérstöku auðkenni, sem verður innan sviga. Það auðkenni gæti vísað til lögaðila sem þarf ekki endilega að vera aðili máls en gæti verið nefndur eða orðið fyrir áhrifum af niðurstöðu málsins, auðkennið gæti einnig verið vísan til helsta álitaefnisins í málinu eða hvað er umdeilt í málinu. Þessari aðferð hefur þegar verið beitt í nýlegu máli dómstólsins frá 26. júní 2017 í máli C-451/16, MB (Kynleiðrétting og eftirlaunasjóður).

Þegar aðilar máls eru bæði einstaklingur og lögaðilar, þá verður málið nefnt eftir einum lögaðilanum. Þegar lögaðilinn er opinber aðili sem er oft aðili máls hjá Evrópudómstólnum (til dæmis, Fjármálaráðherra), þá verður auðkenni einnig bætt við heiti málsins.“

Þetta er jákvæð þróun, vonandi verður þróunin sambærileg hjá íslenskum dómstólum. Hver veit? Það verður áhugavert að fylgjast með hvort nafnbirtingar í dómum hjá íslenskum dómstólum haldi áfram.