Upp á síðkastið hefur verið mikið fjallað um persónuvernd og nýja persónuverndarlöggjöf enda hefur umhverfið tekið breytingum að mörgu leyti með tilkomu nýrra persónuverndarlaga. Vitundarvakning hefur átt sér stað og nú eru bæði almenningur, fyrirtæki og stofnanir farin að huga að persónuvernd í mun meira mæli en áður. Það verður að líta það jákvæðum augum enda er persónuvernd gríðarlega mikilvæg líkt og nú verður vikið að.

Friðhelgi einkalífs 

Hugtakið persónuvernd er hvergi skilgreint í íslenskum rétti en í einföldu máli er átt við réttindi einstaklinga varðandi meðferð persónuupplýsinga. Persónuvernd er jafnframt samofin réttinum til friðhelgi einkalífs sem er stjórnarskrárvarinn réttur og telst til grundvallarmannréttinda. Í friðhelgi einkalífs felst meðal annars réttur einstaklinga til að njóta friðar um einkahagi, lífshætti, auðkenni og samskipti við aðra. Persónuvernd hefur það að markmiði að vernda þessi grundvallarmannréttindi.

Sjálfsákvörðunarréttur

Sjálfsákvörðunarréttur einstaklinga skiptir jafnframt máli þegar kemur að mikilvægi persónuverndar. Sjálfsákvörðunarrétturinn er samofinn réttinum til einkalífs en hann endurspeglast í þeim rétti einstaklings að ráða yfir upplýsingum um sig. Taki einstaklingur til að mynda þátt í lýðræðislegri kosningu myndar hann sér skoðun og kýs samkvæmt henni án þess að þurfa að svara fyrir það. Einstaklingurinn hefur þannig vald til að ákveða hvort hann haldi upplýsingum um sig fyrir sig, t.d. skoðunum sínum, áhugamálum og lífsháttum eða deili þeim með öðrum. Þegar persónuupplýsingum er deilt með öðrum getur valdið færst í aðrar hendur. Því er eðlilegt að gera kröfur um að farið sé gætilega með þær upplýsingar sem einstaklingar kjósa að deila með öðrum.

Stafræn upplýsingaöld

Þá verður að líta til þess að við lifum á stafrænni upplýsingaöld og því er aðgengi að ýmsum persónuupplýsingum mikið. Persónuvernd er því gríðarlega mikilvæg í ljósi þessa og mikilvægt að til séu greinargóðar reglur um hvernig fara skuli með persónuupplýsingar. Með nýju löggjöfinni eru réttindi einstaklinga aukin með þann tilgang að leiðarljósi að yfirráðaréttur einstaklinga yfir persónuupplýsingum færist aftur til þeirra. Jafnframt eru lagðar ríkari skyldur á fyrirtæki og stofnanir að tryggja að einstaklingurinn njóti þessa auknu réttinda sem löggjöfinni er ætlað að veita. Löggjöfin er því ákveðið svar við þeirri upplýsinga- og tækniþróun sem hefur átt sér stað undanfarna áratugi.

Í ljósi framangreinds má sjá hversu mikilvægt það er að persónuvernd sé höfð að leiðarljósi þegar unnið er með persónupplýsingar. Það er bæði hagur einstaklingsins og þess aðila sem vinnur upplýsingarnar. Trúverðugleiki og traust til fyrirtækja og stofnana eykst til muna sýni þau að persónuvernd sé tekin alvarlega.